FRAMTÍÐARSÝN mín fyrir Móa

Lára Rúnars

Móar birtust mér í draumferð.

Ég var á loksprettinum í náminu mínu við skóla Robbie Warren í NA- Shamanisma sumarið 2021. Sterkasta tólið þaðan, sem ég mun taka með mér inn í allt mitt líf, eru draumferðirnar. Hugleiðsluferðalag inn að dulvitundinni – þar sem kyrrðin býr & svörin birtast mér í formi mynda, tilfinninga, tákna eða orða. Það getur verið verið bæði dásamlega fallegt og sársaukafullt að sjá það sem kemur í gegn en það sem er svo frábært við að vera manneskja er að maður hefur alltaf val hvað maður gerir við hlutina.

Hjá mér var það þannig að hlutirnir birtust mér aftur og aftur, svo skýrir og skilaboðin víbruðu í öllum frumum líkamans – og ég bara gat ekki farið frá því. Þannig varð það mér skýrt að ég þyrfti að slíta samstarfi Andagiftar. Það var bæði sárt og erfitt.

Síðan fóru að birtast mér myndir af staðnum sem ég vildi skapa, nákvæmlega hvar hann ætti að vera, hvernig veggirnir væru á litinn, hvaða munir ættu að vera og afhverju (veit ekki hvort þið vitið það en nærveran við vætti náttúrunnar er víða í rýminu. Fulltrúar höfuðáttanna, verndargripir fyrir rýmið, ísbjörninn sem heldur um okkur, fjaðraverk Stínu minnar, tákrænt fyrir brúnna á milli heima svo eitthvað sé nefnt).

Ég verð að segja að Móar eru nákvæmlega eins og ég sá fyrir mér, nema enn betri. Ég furða mig oft á því hvernig það getur gerst að allt þetta einlæga og góða fólk lendi á dýnum í Móum Bolholti 4, 2. hæð.

Á köflum frá stofnun Móa hefur egóið mitt tekið yfir, óttinn verið nálægur þegar ílla hefur gengið rekstrarlega, örvæntingin setið í kjöltunni minni og inn á milli hefur það fengið að stjórna. En hugmyndirnar sem spretta þaðan ganga síður upp og svo er örvæntingin ástand sem erfitt er að hvíla í.

Og ég kem blessunarlega alltaf aftur heim í hjarta Móa. Mig langar að hlusta á það hvað mér er ætlað, hvernig ég geti þjónað því og hvernig ég geti gefið eftir inn í það. Því það er oft það erfiða fyrir mig. Að treysta og gefa eftir, fagna og klappa mér á bakið (þaðan spretta tímarnir Fögnuður á föstudögum - þannig að ég fái líka að æfa mig). Mig langar að fylgja eftir því sem birtist mér skýrt í draumferðum milli heima og treysta því að allt fari vel eða fari eins og því er ætlað. Ég vil axla ábyrg, þá að þið vitið að hverju þið gangið, að það sé alltaf til staðar og ég vil ávallt bera hag heildarinnar fyrir brjósti.  

Framtíðarsýn mín fyrir Móa Studio.

Þegar ég loka augunum sé ég að andrúmsloftið ferðast með okkur hvert sem er. Andrúmsloftið sem nærir dýpst og mest. Alveg óháð öllu því sem við erum að gera í Móum. Ég hef trú að utan um skýran ásetning raðast fólkið sem nær að halda og vill heiðra þetta ríka andrúmsloft. Fyrir mér er það mest precious af því sem við eigum í Móum.Ég sé fyrir mér þriggja hæða hvítt hús á höfuðborgarsvæðinu með stórum afgirtum garði. Á neðstu hæðinni er lífrænt veitingahús og verslun. Á miðhæðinni er jógasalurinn & á efstu hæðinni undir súð er seremóníal & tónheilunarrými með milljón hljóðfærum.Ég sé að við ferðumst djúpt inn í íslenska náttúru og fáum að láni lækningajurtir hennar. Við tökum andrúmsloftið með okkur á milli heimshluta, kynnumst betur kakóplötunni. Mantran verður alltaf nálæg, gjafir kennara okkar og heimsins besti drykkur. Cacao.

Á meðan þetta fær að raunbirtast þá langar mig að deila með ykkur því sem vekur hjá mér alveg bilaða kátínu þessa dagana. Verslun Móa er að stækka og mun opna í litla rými Móa 6. apríl. Litla rýmið er nefla frekar stórt. Það býr í mér búðarfrú sem hefur dálæti af því að miðla dásamlegum umhverfisvænum, heilnæmum, næringarríkum, heimagerðum, handgerðum gæðamunum. Hugmynd er líka uppi um að hafa opið þögult rými í Móum á opnunartímum þar sem fólk getur iðkað á eigin forsendum, fengið sér kakó, dregið spil og hvílt í andrúmsloftið. Það dýrmætasta sem við eigum.

Lára

SKRÁÐU ÞIG Á PÓSTLISTA

Success! You've added to our mailing list.
Oops! Something went wrong while submitting the form. Please try again.